REGLUR um tengingu og notkun RHnets.

I. Almennt um RHnet.

1. Markmið og hlutverk RHnets.

Rannsókna- og háskólanet (RHnet) er stofnað með það að markmiði að efla samskipti íslenska háskóla- og rannsóknarsamfélagsins, bæði inn á við og út á við. Hlutverk RHnets er að tengja íslenska háskóla og rannsóknarstofnanir saman um tölvunet og annast þjónustu á sviði tölvusamskipta.

II. Notendur RHnets.

2. Aðgangur að RHneti.

Aðgang að RHneti hafa háskólar sbr. 3. gr., rannsóknarstofnanir sbr. 4. gr. og aðrir skólar og aðilar sem stjórn RHnets veitir aðgang skv. 5. gr. reglna þessara.

3. Háskólar.

RHnet er opið íslenskum háskólum óháð rekstrarformi þeirra og uppruna. Til háskóla í þessu sambandi teljast allar menntastofnanir sem:
  1. bjóða háskólamenntun er nýtur viðurkenningar af hálfu ríkisvaldsins og
  2. veita háskólagráðu í minnst einni grein.

4. Rannsóknarstofnanir.

RHnet er opið íslenskum rannsóknarstofnunum óháð rekstrarformi þeirra og uppruna. Til rannsóknarstofnana í þessu sambandi teljast allir aðilar sem stunda vísindalegar grunn-rann-sóknir og hagnýtar rannsóknir og njóta viðurkenningar af hálfu ríkisvaldsins, annað hvort á grundvelli samnings eða lagafyrirmæla, þ.m.t. þannig að gert sé ráð fyrir framlögum til rannsókna-starfsemi á fjárlögum.

5. Aðrir aðilar.

Aðrir skólar en háskólar geta tengst RHnet ef stjórn RHnet telur það mögulegt og sérstök beiðni kermur frá yfirvöldum um tengingu þeirra. Aðrar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök eiga að öllu jöfnu ekki kost á aðgangi að RHneti. Heimilt er þó að veita öðrum aðilum en getur í 3. og 4. gr. aðgang að RHneti, enda sé viðkomandi aðili í samstarfi við háskóla eða rannsóknarstofnun og fyrir liggi að mati stjórnar RHnets, að tengingin þjóni hagsmunum rannsóknasamfélagsins, til að mynda ef fyrirliggjandi umsókn er frá fræðasetri, rannsóknarráði, skjalasafni, safni sem stundar eigin rannsóknir, rannsóknardeild stofnunar eða fyrirtækis eða bókasafni sem nýtist háskólum. Sama á við ef fyrirtæki vinna að sjálfstæðum tímabundnum verkefnum með háskólum eða rannsóknarstofnunum. RHnet annast ekki nettengingu til einstaklinga. Stjórn RHnets afgreiðir umsóknir um aðgang samkvæmt III. kafla. Skilyrði fyrir aðgangi aðila skv. 5. gr. skal yfirleitt vera að sá sem fær aðgang hafi Internettengingu fyrir aðra umferð hjá öðrum aðilum en RHneti.

III. Umsóknir um aðgang.

6. Efni umsóknar.

Aðili sem óskar eftir aðgangi að RHneti skal senda framkvæmdastjóra umsókn, þar sem fram komi upplýsingar um eftirfarandi atriði:
  1. Kennitala, heiti og heimilisfang umsækjanda.
  2. Nafn fyrirsvarsmanns stofnunar, fyrirtækis eða félags, sími og netfang.
  3. Stutt lýsing á starfsemi / viðfangsefnum umsækjanda.
  4. Burðargetu og annað er snýr að þeirri tengingu sem óskað er eftir.
  5. Heiti léns og aðrar upplýsingar varðandi vef umsækjanda.

    Umsókn um aðgang skv. 5. gr. skal að auki fylgja:

  6. Lýsing á samstarfi umsækjanda og háskóla / rannsóknarstofnunar.
  7. Lýsing á fyrirhugaðri notkun RHnets.
  8. Aðrar þær upplýsingar sem umsækjandi metur gagnlegar.

7. Meðferð umsóknar.

Stjórn RHnets afgreiðir umsóknir þegar allra nauðsynlegra gagna hefur verið aflað. Ákvörðun um aðgang getur verið tímabundin og háð sérstökum skilyrðum sem stjórnin metur nauðsynleg til þess að tryggja að notkun umsækjanda sé í samræmi við markmið RHnets. Að öðru leyti gilda reglur þessar og skilmálar um notkun netsins.

IV. Tenging við RHnet.

8. Föst lína.

Tenging við RHnet er ávallt á fastri línu. Gagnvart notendum sem falla undir 5. gr. reglna þessara skal við það miðað að þeir annist sjálfir tengingu sína við RHnet og beri sjálfir allan kostnað vegna símtengingar og tengileiða.

9. Þjónusta RHnets.

RHnet býður þjónustu sem sniðin er að þörfum háskóla- og rannsóknasamfélagsins. RHnet tengir fyrst og fremst aðila með eigin tækniþekkingu. Gengið er út frá því að viðkomandi aðilar sjái um eigin netþjóna og að tölvupóstur og önnur netþjónusta innan stofnunar gangi snuðrulaust fyrir sig.

10. Kröfur til tengdra aðila.

Hver tengdur aðili skal sjá til þess að fyrir hendi sé a.m.k. einn nafnaþjónn á eigin neti. Gert er ráð fyrir að tengdur aðili tryggi vara-nafnaþjón með samningum eða eigin vélbúnaði. Sjá einnig kröfur varðandi umferðarsíun. Hver tölva hjá aðilum sem tengdir eru RHneti skal vera skráð í DNS á viðeigandi IP-neti sama aðila. Hver aðili ákveður sjálfur hvernig og hvenær hann leyfir viðbótarlénsnöfn fyrir tölvur innan stofnunar.

11. Burðargeta.

Minnsta tenging sem unnt er að nota í beintengingu við RHnet er 64 kbit/sek., en almennt er miðað við að tengingar séu á bilinu 10 Mbit/sek. - 1 Gbit/sek.

12. Gjöld fyrir tengingu.

RHnet innheimtir gjöld af notendum fyrir tengingar þeirra, samkvæmt verðskrá sem samþykkt er af stjórn RHnets. Við ákvörðun verðskrár skal stjórn RHnets tryggja að gjöld séu ekki svo lág að þau vinni gegn heilbrigðri samkeppni.

V. Skilmálar varðandi notkun RHnets.

13. Almennir skilmálar.

Tilgangur RHnets er að greiða fyrir viðteknum Internet samskiptum milli aðila RHnets innbyrðis og annarra neta. Aðeins má nota netið og tengingar þess við önnur net í samræmi við hlutverk þess og þessa notkunarskilmála. Reglur RHnets gilda um alla notendur og enginn tengdur aðili getur fellt þær úr gildi. Hverjum tengdum aðila er þó heimilt að setja strangari reglur fyrir eigin notendur.

14. Miðlun upplýsinga um skilmála.

Sérhver aðili sem tengdur er RHneti á grundvelli 3. - 5. gr. reglna þessara, skal miðla til starfsmanna sinna og annarra sem nota tengingu hans, upplýsingum um þá skilmála sem um notkunina gilda.

15. Auðkenni.

Aðilar að RHneti þurfa að geta sýnt fram á, hver hafi borið ábyrgð á notkun RHnets hverju sinni, þannig að hægt sé að rekja notkunina til tiltekins einstaklings. Þetta er hægt að gera með einkvæmum notendanöfnum eða aðgangsorðum eða með því að ávallt liggi fyrir hverjum viðkomandi tölva tilheyrir.

16. Óleyfileg umferð.

Bannað er að nota RHnetið fyrir:
  1. Umferð frá almenningsnotendanöfnum eða fjölnotendanöfnum sem ekki er unnt að auðkenna.
  2. Umferð sem truflar vinnu annarra á netinu eða netið sjálft eða veldur því að notendur eða tölvur tapa gögnum.
  3. Hvers kyns óumbeðna fjöldadreifingu á upplýsingum, svo sem auglýsingar, stjórnmálaáróður og "keðjubréf"eða dreifingu efnis á póstlista sem er óviðkomandi viðfangsefni listans.
  4. Sendingar sem valda umferð á neti tengdu RHneti og fer í bága við notkunar-skilmála þess nets.
  5. Umferð sem stríðir gegn siðareglum RHnets, sbr. 17. gr.
Aðila tengdum RHneti er skilyrðislaust óheimilt að endurselja aðgang að RHneti til þriðja aðila. Stjórn RHnets sker úr um hvort tiltekin notkun á netinu teljist leyfileg og skal þá haft til hliðsjónar hvað teljast góðir siðir á Netinu.

17. Siðareglur RHnets.

Í háskóla- og rannsóknasamfélaginu er almennt við það miðað að halda beri netum eins opnum og unnt er.

Gert er ráð fyrir að notendur virði almennar umgengnisvenjur og siðareglur. Því leyfir RHnet engar tilraunir eða háttalag sem miðar að því:

  1. Að nota netþjónustu í leyfisleysi.
  2. Að beita duldum eða röngum notendaauðkennum í tölvusamskiptum.
  3. Að trufla viðtekna notkun netsins.
  4. Að skemma eða breyta í heimildarleysi upplýsingum sem geymdar eru á tölvutæku formi.
  5. Að rjúfa friðhelgi einkalífs manna eða raska viðskipta- og fjárhagslegum hagsmunum lögaðila.
  6. Að rægja eða lítilsvirða nafngreinda menn eða hópa, eða dreifa upplýsingum sem eru villandi eða beinlínis rangar.

18. Viðurlög.

Allir þeir sem tengjast RHneti skuldbinda sig til að hlíta ofangreindum skilmálum um notkun tölvuneta þeirra sem aðgangur fæst að með aðild að RHneti. Brot gegn bannákvæðum og öðrum skilmálum geta varðað þá aðila viðurlögum sem tengdir eru RHneti sem og þá einstaklinga sem hagnýta sér tenginguna. Netstjórum RHnets er heimilt að rjúfa aðgang tengds aðila að netinu ef fram kemur rökstuddur grunur um brot á skilmálum þessum af hálfu notenda hans. Netstjórar RHnets skulu senda slík mál til stjórnar RHnets til umfjöllunar og úrskurðar.

19. Gildistaka o.fl.

Ofangreindar reglur voru samþykktar á stofnfundi RHnets þann 24. janúar 2001, að meðtalinni breytingu á 2 og 5gr sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 23. febrúar 2005. Stjórn RHnets annast framkvæmd reglnanna og er heimilt að gera breytingar á þeim eins og þurfa þykir. Breytingar sem stjórn RHnets gerir á reglunum taka gildi þremur sólarhringum eftir að efni þeirra hefur verið kynnt fyrir öllum aðilum sem tengjast RHneti.